Strákarnir okkar unnu 5 marka sigur á Svíum í öðrum leik liðsins á EM í Króatíu í dag.

Jafnt var á með liðunum framan af leik en á síðustu 10 mínútunum fyrri hálfleiks sigu íslensku strákarnir fram úr og höfðu tveggja marka forystu í hálfleik, 14-12.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn vel og komst í 17-14 en þá bættu Svíarnir í varnarleikinn og eftir eftir nokkur hraðaupphlaup var staðan 18-18. En það voru okkar strákar sem voru sterkari á lokakaflanum og lönduðu 5 marka sigri, 29-24.

Íslenska liðið lék sterkan 6-0 varnarleik í dag sem skilaði þó nokkrum hraðaupphlaupum, sóknarleikurinn var vel skipulagður og tæknifeilum fækkaði mikið frá leik gærdagsins. Tumi Steinn Rúnarsson var valinn besti leikmaður íslenska liðsins í dag en hann stýrði sóknarleiknum af mikill festu. Það má hrósa strákunum fyrir dagsverkið, það er alltaf afrek að vinna Svía á íþróttavellinum.

Markaskorarar Íslands:

Arnór Snær Óskarsson 8, Haukur Þrastarson 8, Tumi Steinn Rúnarsson 5, Einar Örn Sindrason 4, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 1, Dagur Gautason 1, Eiríkur Guðni Þórarinsson 1, Stiven Tobar Valencia 1.

Viktor Gísli Hallgrímsson varði 17 skot í markinu, þar af eitt víti.

Næsti leikur liðsins er á sunnudag gegn Slóveníu og hefst leikurinn kl. 12.30 að íslenskum tíma. Við minnum á beina útsendingu á ehfTV.