U-18 karla | 7 marka tap gegn Ungverjum

Strákarnir okkar léku sinn annan leik á EM í Svartfjallalandi fyrr í dag, andstæðingar dagsins voru Ungverjar en bæði lið unnu góðar sigra í fyrstu umferð keppninnar.

Íslensku strákarnir voru ekki með á nótunum í byrjun leiks og lendu 1-8 undir eftir 10 mínútur. Eftir það jafnaðist leikurinn, strákarnir okkar áttu góðan kafla á lokamínútum fyrri hálfleiks og minnkuðu muninn niður 4 mörk. Staðan 15-11 í hálfleik.

Ungverjar hófu síðari hálfleikinn af krafti og skoruðu fyrstu 2 mörkin en íslenska liðið kom af krafti til baka og átti möguleika að minnka muninn í 3 mörk þegar síðari hálfleikur var u.þ.b. hálfnaður. En þá kom bakslag í spilamennsku íslenska liðsins, Ungverjar gengu á lagið og unnu sannfærandi 7 marka sigur. Lokatölur í dag, 23-30 Ungverjum í hag.

Markaskorar Íslands:
Atli Steinn Arnarson 5, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Viðar Ernir Reimarsson 3, Elmar Erlingsson 2, Sæþór Atlason 2, Össur Haraldsson 2, Andri Fannar Elísson 1, Andrés Marel Sigurðsson 1, Hans Jörgen Ólafsson 1, Birkir Snær Steinsson 1, Kjartan Þór Júlíusson 1, Sigurður Snær Sigurjónsson 1.

Breki Hrafn Árnason varði 15 skot í leiknum.

Það voru nokkrir góðir kafla hjá íslenska liðinu í dag en stöðugleika vantaði í spilamennskuna, ungverska liðið er gríðarsterkt og frammistaðan í dag var því miður ekki nóg. Á morgun er frídagur sem verður nýttur í æfingar og fundi en á sunnudag mæta strákarnir okkar Þjóðverjum í úrslitaleik um sæti í milliriðli í mótinu.