U-17 ára landslið kvenna gerði í dag jafntefli við sterkt lið Póllands í Kwidzyn í Póllandi. Lokatölur urðu 24-24. 

Eftir tap í gær mættu stelpurnar vel stemmdar til leiks staðráðnar í að gera betur en í gær. Jafnræði var með liðunum en Pólland hafði ávalt frumkvæðið og í hálfleik var staðan 11-10 fyrir heimastúlkum. 

Í seinni hálfleik skiptust liðin á að hafa forystu. Þegar stutt var eftir hafði Pólland náð þriggja marka forystu. En stelpurnar okkar sýndu gríðarlegan karakter með því að ná að jafna leikinn. Lokatölur urðu eins og áður segir 24-24. 

Stelpurnar sýndu virkilega flottan leik í dag sem gefur góð fyrirheit fyrir komandi verkefni sem verður í Makedóníu í lok júlí. 

Maður leiksins var valin Þóra María Sigurjónsdóttir en hún skoraði 3 mörk og fór fyrir varnarleik íslenska liðsins í leiknum. 

Markaskorarar Íslands: 

Lena Margrét Valdimarsdóttir 5, Harpa María Friðgeirsdóttir 3, Þóra María Sigurjónsdóttir 3, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 2, Katla María Magnúsdóttir 2, Birta Rún Grétarsdóttir 2, Auður Ester Gestsdóttir 2, Berta Rut Harðardóttir 1, Tinna Sól Björgvinsdóttir 1, Sara Dögg Hjaltadóttir 1, Embla Jónsdóttir 1, Alexandra Líf Arnarsdóttir 1. 

Sara SIf Helgadóttir varði 11 skot og Margrét Einarsdóttir varði 7 skot. 

Á morgun bíður stelpnanna ferðalag heim til Íslands.