Stelpurnar okkar léku í annað sinn á tveimur dögum gegn Slóvakíu og lauk leiknum með jafntefli eftir æsispennandi lokamínútur.

Eftir vonbrigði gærdagsins kom íslenska liðið af miklum krafti inn í leikinn í dag og var jafnt á flestum tölum í fyrri hálfleik, staðan 12-11 fyrir Ísland þegar liðin gengu til búningsklefa.

Íslensku stúlkurnar héldu áfram góðri spilamennsku í síðari hálfleik og hafði þriggja marka forystu, 22-19 þegar 10 mínútur voru eftir. En það hrökk allt í baklás og heimakonur skoruðu 4 mörk í röð. Þjálfarar íslenska liðsins tóku þá leikhlé með 30 sekúndur til leiksloka sem skilaði marki í lokasókninni, lokatölur 23-23.

Stelpurnar okkar spiluðu frábæra vörn í dag og var sóknarleikur liðsins vaxandi en skotnýtingin hefði mátt vera betri. Leikirnir hafa verið frábær undirbúningur fyrir liðið sem fer á EM á Ítalíu í byrjun ágúst.

Markaskorarar Íslands:

Ásdís Þóra Ágústsdóttir 9, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 5, Guðlaug Embla Hjartardóttir 2, Hanna Karen Ólafsdóttir 2, Katrín Tinna Jensdóttir 1, Rakel Sara Elvarsdóttir 1, Helga María Viðarsdóttir 1, Úlfhildur Tinna Lárusdóttir 1 og Elín Rósa Magnúsdóttir 1.

Andrea Gunnlaugsdóttir varði 6 skot í leiknum og Lísa Bergdís Arnarsdóttir varði 4 skot.