Stelpurnar okkar í U17 ára landsliðinu unnu frábæran sigur gegn sterku liði Tékklands í þriðja leik riðlakeppninnar á EM á Ítalíu í dag. Fyrirfram var búist við hörkuviðureign enda bæði lið með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leiki mótsins. Íslenska liðið mætti eins og hina tvo leikina sterkt til leiks og skein baráttuandinn úr andlitum leikmanna. Íslenska liðið spilaði framliggjandi 5-1 vörn sem kom tékkneska liðinu í opna skjöldu og áttu þær fá svör við sterkum varnarleik liðsins. Um miðbik fyrri hálfleiks höfðu stelpurnar náð þriggja marka forskoti og hefði munurinn hæglega getað verið meiri. Þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik kom sterkt áhlaup frá tékkneska liðinu og náðu þær í fyrsta skipti forskoti í leiknum í stöðunni 12-11. Það voru hálfleikstölur leiksins. 

Stelpurnar nýttu leikhléið vel og mættu grimmar í seinni hálfleikinn. Þær náðu að loka á sterkar skyttur tékkneska liðsins og með öguðum sóknarleik náðu þær aftur þriggja marka forskoti. 

Þá kom aftur áhlaup frá tékkneska liðinu en í þetta skiptið náðu íslensku stelpurnar að standa það af sér. 

Lokamínútur leiksins voru æsispennandi en þegar um 15 sekúndur voru eftir náði tékkneska liðið að minnka muninn í eitt mark. Með skynsemi náðu stelpurnar að spila út tímann og gulltryggði Daðey Ásta Hálfdánsdóttir liðinu tveggja marka sigur eftir frábæra sendingu frá Ásdísi Þóru Ágústsdóttur sem jafnframt var valin maður leiksins. Lokatölur leiksins voru 26-24 Íslandi í vil og hafa stelpurnar tryggt sig inn í undanúrslitin sem fara fram á laugardaginn kemur. Næsti leikur liðsins er á morgun, fimmtudaginn 8. ágúst, kl 12. Með sigri getur liðið tryggt efsta sæti riðilsins. 

Mörk Íslands skoruðu:

Ásdís Þóra Ágústsdóttir 11, Elín Rósa Magnúsdóttir 6, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir 2, Hanna Karen Ólafsdóttir 2, Katrín Tinna Jensdóttir 1, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 1, Ída Margrét Stefánsdóttir 1. 

Andrea Gunnlaugsdóttir varði 11 skot í markinu og Lísa Bergdís Arnarsdóttir 1 skot