U-17 karla | Tveir leikir í milliriðli á European Open

Milliriðill European Open hófst í dag með tveimur leikjum hjá U-17 ára landsliði karla. Fyrri leikur dagsins var gegn sterku liði Frakka sem unnu sinn riðil.

Janfræði var með liðunum á fyrstu mínútum leiksins og mikil barátta hjá íslensku strákunum á báðum endum vallarins. Liðin skiptust á að hafa frumkvæðið og var það því við hæfi að liðin skilu jöfn að loknum fyrri hálfleik 11-11.

Sama var uppi á teningnum fyrstu mínútur seinni hálfleiks en svo byrjaði allt að ganga á afturfótunum hjá strákunum og Frakkar gengu á lagið þegar þeir breytt stöðunni úr 17-16 í 22-16. Strákarnir reyndu hvað þeir gátu að koma til baka en allt kom fyrir ekki og Frakkar unnu að lokum öruggan sigur 26-20.

Markaskor Íslands í leiknum var: Ágúst Guðmundsson 6 mörk, Antonie Óskar Pantano 3, Magnús Dagur Jónatansson 3, Dagur Árni Heimisson 2, Jónas Karl Gunnlaugsson 2, Stefán Magni Hjartarson 2, Jens Bragi Bergþórsson 1 og Ingvar Dagur Gunnarsson 1

Í markinu varði Óskar Þórarinsson 8 skot.

Seinni leikur dagins var gegn Sviss sem vann einnig sinn riðil. Ljóst var að um mikilvægan leik að ræða í baráttunni um verðlaunasæti mótinu. Strákarnir mættu vel stemmdir til leiks og náðu frumkvæðinu fljótlegar og komust meðal annars í 7-4. Þá fór vörnin að slakna aðeins ásamt því að íslensku strákarnir klikkuðu dauðafærum og endaði hálfleikurinn 11-10 fyrir Sviss.

Svisslendingar héldu áfram að vera með frumkvæðið í seinni hálfleik en íslensku strákarnir voru þó aldrei langt undan. Mestu máli skipti að erfiðlega gekk að koma vörninni í gang. Strákarnir gáfust þó aldrei upp og náðu að jafna leikinn þegar 15 sekúndur lifðu leiks en þá tóku Svisslendingar leikhlé og náðu að skora síðasta mark leiksins á lokasekúndum leiksins. Sigur Sviss því staðreynd 25-24 í æsispennandi leik þar sem sigurinn gat dottið báðum megin.

Markaskor Íslands í leiknum var: Dagur Árni Heimisson 9 mörk, Ágúst Guðmundsson 4, Jens Bragi Bergþórsson 4, Jónas Karl Gunnlaugsson 3, Magnús Dagur Jónatansson 1, Stefán Magni Hjartarson 1, Antonie Óskar Pantano 1 og Harri Halldórsson 1.

Í markinu varði Óskar Þórarinsson 5 skot og Sigurjón Bragi Atlason 1.

Strákarnir klára svo milliriðilinn á morgun þegar þeir mæta Ísrael kl. 10:00 á íslenskum tíma en á föstudag er svo spilað um sæti á mótinu. Áfram Ísland!