Þriggja marka tap gegn Frökkum var niðurstaðan í dag eftir hraðan og skemmtilega leik gegn Frökkum í Audi Arena í Györ.

Mikill hraði var í leiknum frá upphafi, Frakkarnir yfirleitt fyrri til að skora en íslensku strákarnir skammt undan. Eftir 10 mínútna leik var staðan 9-9, lítið fór fyrir varnarleik og markvörslu hjá báðum liðum en bráðskemmtilegur sóknarleikur gladdi áhorfendur í stúkunni. Frakkar sigu framúr eftir því sem leið á hálfleikinn og höfðu tvegga marka forystu 17-19 þegar liðin gengu til búningsklefa.

Það voru Frakkar sem skoruðu fyrstu mörkin í síðari hálfleik og náðu fljótlega 4 marka forystu. En strákarnir okkar söxuðu smám saman á forskotið og þegar innan við ein mínúta var eftir munaði aðeins einu marki. Það voru hinsvegar Frakkar sem skoruðu tvö mörk á lokamínútunni og unnu þriggja marka sigur, 31-34. 

Markaskorarar Íslands í leiknum:

Haukar Þrastarson 9, Dagur Gautason 5, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 4, Tjörvi Týr Gíslason 3, Arnór Snær Óskarsson 3, Tumi Steinn Rúnarsson 3, Goði Ingvar Sveinsson 2, Eiríkur Guðni Þórarinsson 1, Daníel Freyr Rúnarsson 1.

Páll Eiríksson varði 9 skot í leiknum.

Íslensku strákarnir spiluðu vel í leiknum í dag en það er ekki nóg til að leggja þessi allra sterkustu lið. Illa hefur gengið að skora á vítalínunni og hafa 7 víti farið í súginn í fyrstu tveim leikjunum. Strákarnir eru staðráðnir í að bæta þetta í næsta leik en á morgun mæta þeir Spánverjum og hefst leikurinn kl.16.10.