Það voru tveir leikir á dagskrá hjá U-17 ára landsliði karla á European Open í dag og má segja að þeir hafi verið eins og svart og hvítt.

Í fyrri leik dagsins var leikið gegn Austurríki og þar gekk allt á afturfótunum. Austurríki náði snemma í leiknum 4 marka forystu og þrátt fyrir góða vörn í fyrri hálfleik gekk okkur mönnum illa að skora, staðan í hálfleik 8-13.

Í síðari hálfleik keyrðu Austurríkismenn upp hraðann, spiluðu framliggjandi varnarleik og skoruðu fjölmörg mörk úr hraðaupphlaupum. Leikurinn endaði 15-30, verðskuldaður sigur Austurríkis eftir slakasta leik strákanna okkar á mótinu.

Markaskorarar Íslands í leiknum:

Ívar Logi Styrmisson 3, Magnús Orri Axelsson 2, Hrannar Ingi Jóhannsson 2, Jón Bald Freysson 2, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 2, Einar Örn Sindrason 2, Blær Hinriksson 1, Arnar Steinn Arnarsson 1.

Björgvin Franz Björgvinsson varði 8 skot og Sigurður Dan Óskarsson varði 2 skot.

Í síðari leik dagsins mættu strákarnir okkar Pólverjum í kaflaskiptum leik. Það var allt annað að sjá til liðsins í leiknum og augljóst að menn ætluðu að bæta upp fyrir slaka frammistöðu í fyrri leik dagsins.

Stórir og sterkir Pólverjar byrjuðu leikinn af miklum krafti og höfðu frumkvæðið fyrstu mínúturnar en íslensku strákarnir bættu í varnarleikinn eftir því sem leið á hálfleikinn og höfðu tveggja marka forystu í hálfleik, 13-11.

Eftir jafnar upphafsmínútur síðari hálfleiks tóku Pólverjar mikinn sprett og náðu á skömmum tíma 3 marka forystu þegar 15 mínútur voru til leiksloka. En þá sögðu strákarnir okkar hingað og ekki lengra og áttu frábæran lokakafla sem skilaði þriggja marka sigri, 31-28.

Þess má geta að um 200 íslenskir áhorfendur voru í höllinni og var stuðningur þeirra ómetanlegur, sérstaklega á lokamínútunum sem voru æsispennandi.

Markaskorarar Íslands í leiknum:

Stiven Tobar Valencia 9, Einar Örn Sindrason 7, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 4, Guðjón Baldur Ómarsson 4, Jón Bald Freysson 3, Ívar Logi Styrmisson 2, Blær Hinriksson 1, Davíð Elí Heimisson 1.

Björgvin Franz Björgvinsson varði 11 skot í leiknum.

Á morgun mæta íslensku strákarnir Eistlandi og mun sigurvegarinn í þeim leik spila um 3. sætið á mótinu á föstudag.

U-17 ára landslið karla unnu nú rétt í þessu frábæran sigur í Pólverjum, nánar á Hsi.is í kvöld. #handbolti #u17ka

A post shared by Handknattleikssamband Íslands (@hsi_iceland) on