U-17 karla | European Open hófst í dag

Strákarnir í U-17 ára landsliðinu hófu leik á European Open mótinu í Gautaborg í dag þegar að tveir fyrstu leikir riðlakeppninnar fóru fram en í riðlakeppninni er leikið 2×20 mínútna leiki.

Fyrri leikur dagsins var gegn Lettum en í þeim leik byrjuðu Lettar betur og komust í 2-0 og voru íslensku strákarnir að elta framan af. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður komust strákarnir fyrst yfir í stöðunni 9-8 og héldu frumkvæðinu út hálfleikinn en að honum loknum var staðan 13-10 Íslandi í vil. 

Munurinn hélst í 2-3 mörkum í byrjun seinni hálfleiksins og mikill hraði var í byrjun hálfleiksins. Það voru síðan íslensku strákarnir sem réðu betur við hraðann en hægt og rólega bættist í muninn og endaði leikurinn á öruggum sigri Íslands 30-22.

Markskor Íslands í leiknum var: Ágúst Guðmundsson 8 mörk, Magnús Dagur Jónatansson 5, Dagur Árni Heimisson 4, Jónas Karl Gunnlaugsson 3, Stefán Magni Hjartarson 3, Harri Halldórsson 2, Jens Bragi Bergþórsson 2, Max Emil Stenlund 2 og Antonie Óskar Pantano 1.

Í marki Íslands stóð Óskar Þórarinsson og varði hann 15 skot.

Seinni leikur dagsins var gegn Eistlandi. Það sást frá fyrstu mínútu að strákarnir væru vel stemmdir og áttu Eistarnir í vandræðum með að komast fram hjá góðri íslenskri vörn. Strákarnir voru því með frumkvæðið allann fyrri hálfleikinn og var staðan 12-4 fyrir Ísland í hálfleik.

Meira jafnræði var með markaskori liðanna í seinni hálfleiknum og íslensku strákarnir voru þó aldrei í neinum vandræðum og enduðu á að vinna stórsigur 24-14.

Markskor Íslands í leiknum var: Ágúst Guðmundsson 5 mörk, Jens Bragi Bergþórsson 4, Dagur Árni Heimisson 3, Stefán Magni Hjartarson 3, Antonie Óskar Pantano 3, Jónas Karl Gunnlaugsson 2, Harri Halldórsson 2, Hugi Elmarsson 1 og Nathan Helgi Asare 1.

Í marki Íslands stóð Sigurjón Bragi Atlason og varði hann 10 skot.

Á morgun taka svo við aðrir 2 leikir en þar sem að liðið mætir Svíum kl. 08:00 og Pólverjum kl. 17:00. Hægt er að horfa á leikina á ehftv.com