U-17 ára landslið karla lék sinn fyrsta leik á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í kvöld gegn Slóveníu. Þrátt fyrir eins marks tap í kaflaskiptum leik sýndu strákarnir góðan leik á löngum köflum.

Slóvenar voru fyrri til að skora á upphafsmínútunum en strákarnir okkar voru skammt undan, jöfnuðu og komust í 9-6 eftir 22 mínútna leik. Leikurinn jafnaðist þá á ný og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 11-11.

Íslensku strákarnir hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og náðu tveggja marka forystu en voru í framhaldinu mikið einum færri og lendu 4 mörkum undir þegar 10 mínútur voru til leiksloka. En þá kom magnaður leikkafli og á þrem mínútum var staðan orðin jöfn á nýjan leik 24-24. Eftir mikla spennu á lokamínútunum áttu okkar menn möguleika á jafna í lokin en náðu ekki góðu skoti á markið. Það voru því Slóvenar sem unnu 26-27.

Markaskorarar Íslands í leiknum:

Dagur Gautason 11, Haukur Þrastarson 6, Eiríkur Guðni Þórarinsson 2, Arnar Máni Rúnarsson 2, Arnór Snær Óskarsson 2, Goði Ingvar Sveinsson 1, Dagur Sverrir Kristjánsson 1, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 1.

Björgvin Franz Björgvinsson varði 13 skot.

Það var margt gott í leik strákanna í kvöld og það ætla þeir að taka með sér í leik morgundagsins. Á morgun er leikið gegn Frökkum kl.16.10 en Frakkar unnu 10 marka sigur á Spánverjum í kvöld.