U-15 ára landslið Íslands kemur heim í kvöld eftir vel heppnaða æfingaferð til Álaborgar í Danmörku.

Liðið hefur dvalist í Álaborg síðan 12. júní við æfingar og keppni við bestu mögulegu aðstæður. Fram eftir vikunni var æft 1-2 á dag, auk þess sem hópurinn skellti sér í ýmiskonar hópefli (yoga, pubquiz o.fl.).

Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní var spilaður æfingaleikur við úrvalslið Norður-Jótlands, hópnum var skipt upp í tvö lið. Fyrri hópurinn tapaði sínum leik 20-21 en síðari hópurinn vann góðan sigur 27-25.

Daginn eftir var annar leikur á dagskrá og var þá spilað gegn 16 ára liði Álaborgar, aftur var skipt í tvo hópa. Fyrri hópurinn vann 18-16 en sá síðari tapaði í æsispennandi leik 17-18.

Þessi ferð hefur gefið strákunum mikið, þeir hafa verið í viku saman erlendis og kynnst því hvernig er að æfa og spila við aðrar aðstæður en hérna heima. Þjálfarar hópsins eru þeir Maksim Akbashev og Örn Þrastarson, liðsstjóri í þessari ferð var Andri Sigfússon.