Í ljósi umræðu síðustu daga um atvik í leik Hauka og Selfoss í Olísdeild kvenna þann 25. janúar síðastliðinn og umræðu um kæru Hauka á hendur Selfossi og Handknattleikssambandi Íslands (HSÍ) til dómstóls HSÍ og afturköllunar hennar þá telur HSÍ nauðsynlegt að taka eftirfarandi fram:

HSÍ leggur mikinn metnað í það að sama umgjörð sé í handknattleik kvenna og karla. Allar sömu reglur gilda í þessum leikjum kvenna og karla , hvort sem um er að ræða í efstu deild eða yngstu flokkum og er enginn afsláttur gefinn af kröfum um umgjörð eða framkvæmd leikja.

Öll félög innan HSÍ hafa möguleika skv. lögum HSÍ til að kæra atvik og önnur atriði þar sem þau telja á sér brotið, til dómstóla HSÍ. HSÍ gefur ekki út yfirlýsingar eða tekur afstöðu í slíkum málum heldur skulu þau rekin fyrir dómstólum HSÍ eftir þeim málsmeðferðarreglum sem þar gilda. Mikilvægt að dómstólar HSÍ séu sjálfstæðir og starfi án afskipta forystu HSÍ enda væru slík afskipti fráleit. 

Á sama hátt er það ekki í verkahring forystu HSÍ að tjá sig um eða endurskoða ákvarðanir dómara í leik, hvort sem þær eru réttar eða rangar eða höfðu áhrif á leikinn eða ekki. Öllum athugasemdum um störf dómara sem berast HSÍ er vísað til umfjöllunar í dómaranefnd HSÍ sem fer yfir og vinnur úr slíkum athugasemdum.

HSÍ mun ekki fjalla efnislega um það mál, sem um var fjallað í kæru Hauka á hendur Selfossi og HSÍ í ljósi ofangreindra atriða. Þar sem kæran var í gær afturkölluð af hálfu Hauka telst málinu lokið.

Reykjavík, 30. janúar 2017,

Einar Þorvarðarson

Framkvæmdastjóri HSÍ