Fræðslunefnd HSÍ stendur fyrir þjálfaranámskeiðum á 1., 2. og 3. stigi helgina 28. – 30. september.

Á 1. stigi er barnaþjálfun (6. – 8. flokkur) viðfangsefnið. Grunnatriði íþróttarinnar kynnt og hvernig þau skal þjálfa. Hér er reynt að hafa tengingar við íþróttafræði og markmið HSÍ er að eingöngu íþróttafræðingar sjái um kennsluna á þessu stigi. 

Á 2. stigi er unglingaþjálfun (2. – 5. flokkur) viðfangsefnið. Stigið miðar að því að byggja á grunn leikmanna úr yngstu flokkunum, bæta við sérþjálfun eftir leikstöðum og svo í framhaldinu einföldu leikskipulagi í vörn og sókn. Um er að ræða þriðja helgarnámskeiðið á 2. stigi og því útskrifast þjálfarar af stiginu eftir þetta námskeið.

Á 3. stigi er meistaraflokksþjálfun viðfangsefnið. Námið kemur inn á alla þá þætti sem skipta máli í meistaraflokksþjálfun, ítarlega er farið í hvern þátt og lagt upp úr því að vera með hæfa fyrirlesara. Þetta er þriðja helgarnámskeið á 3. stigi og er áætlað að þessi hópur geti lokið sínu námi á stiginu í kringum áramótin.

Dagskrá námskeiðanna liggur fyrir á næstu dögum og verður hún þá send út, ásamt upplýsingum um skráningu.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá magnus@hsi.is