Um síðustu helgi fór fram fyrsti hluti Mastercoach námskeiðs sem HSÍ stendur fyrir á næstu mánuðum. EHF Mastercoach er æðsta gráðan í þjálfaramenntunar í handbolta í Evrópu og er þetta í fyrsta skipti sem námskeiðið er haldið hér á landi. 

HSÍ hefur fengið leyfi frá EHF til að halda þetta námskeið hérlendis og munu þeir íslensku þjálfarar sem hafa lokið Mastercoach koma að kennslu á námskeiðinu ásamt kennurum frá EHF og  háskólasamfélaginu hér heima. 

Fyrsta lotan fór fram í íþróttamiðstöðinni í Laugardal og voru 24 þjálfarar skráðir í námið sem koma saman í sjö skipti á næstu mánuðum. Fyrirlesarar um sl. helgi voru m.a. Guðmundur Guðmundsson, Dagur Sigurðsson, Aron Kristjánsson, Fannar Karvel og Elís Þór Rafnsson. Árið 2020 verður skylda fyrir þjálfara í landsliðum og Meistaradeild Evrópu að hafa Mastercoach gráðu en á komandi árum mun þjálfaramenntun verða skilyrði í leyfiskerfi HSÍ. 

Þá hefur HSÍ hefur gert samkomulag við Háskólann í Reykjavík um kennslu í íþróttatengdum fræðum; líffærafræði, íþróttameiðslum, líffræði, sálfræði, stjórnun, íþróttafélagsfræði  og almennri kennsluþjálfun. Sá hluti námskeiðsins verður kenndur í fjarnámi. 

Þátttakendur í námskeiðinu eru flestir reynslumiklir þjálfarar sem koma að þjálfun meistaraflokka hér heima og hafa víðtæka þekkingu á íþróttinni. HSÍ lýsir yfir mikilli ánægju með að Mastercoach námskeiðið sé komið af stað og bindur miklar vonir við framhaldið.