Þýskaland lagði Ísland 31-24 í vináttulandsleik þjóðanna í Laugardalshöll í kvöld. Bæði lið undirbúa sig fyrir heimsmeistaramótið í Katar sem hefst 15. janúar.

Ísland hóf leikinn frábærlega. 6/0 vörnin gekk frábærlega og liðið skoraði fimm af sex fyrstu mörkum leiksins. Þýska liðið átti í vandræðum með að skapa sér færi og þegar liðið náði skot var Björgvin Páll Gústafsson frábær í markinu.

Vörnin var góð allan fyrri hálfleikinn en sóknarleikurinn hikstaði er leið á hálfleikinn og Þýskaland náði að komast fyrir hálfleik en Vignir Svavarsson jafnaði leikinn frá miðju á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks og staðan í hálfleik 11-11.

Ísland sá aldrei til sólar í seinni hálfleik. Þýskaland skoraði fyrstu mörkin og keyrði yfir íslenska liðið og voru úrslitin í raun ráðin þegar nokkuð var eftir af leiknum.

Íslenska vörnin sem var svo góð í fyrri hálfleik gaf eftir og lítið gekk sóknarlega þar til í lokin þegar leikurinn var tapaður.

Íslenska liðið saknaði Arons Pálmarssonar en hvorki Arnór Atlason né Sigurbergur Sveinsson náðu sér á strik í vinstri skyttunni.

Alexander Petersson fór fyrir Íslandi í markaskorun í fyrri hálfleik og mikilvægi Snorra Steins Guðjónssonar sýndi sig þegar sóknarleikurinn hrundi þær mínútur sem hann var út af í seinni hálfleik.

Dagur Sigurðsson þjálfari Þýskalands getur verið ánægður með lið sitt í dag en óþarfi er fyrir Íslendinga að örvænta þó fyrsti æfingaleikur fyrir mót hafi farið illa.

Tekið af visir.is.