Lið Íslands skipað leikmönnum undir 21 árs átti ekki í miklum vandræðum með að leggja Litháen að velli í fyrsta leik sínum í undankeppni HM í Brasilíu 2015.

Lokatölur urðu 27-15, en eins og tölurnar bera með sér voru yfirburðir Íslands miklir. Íslensku strákanna bíður hins vegar mun erfiðara verkefni á morgun þegar þeir mæta Noregi í öðrum leik sínum. Síðasti leikur íslenska liðsins er svo gegn því eistneska á sunnudaginn.

Allir leikirnir fara fram í íþróttahúsinu í Strandgötu, en efsta sætið í riðlinum gefur þátttökurétt í lokakeppninni í Brasilíu.

Litháar héldu í við íslenska liðið framan leik og þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 5-4, Íslandi í vil. En þá skildu leiðir.

Íslenska vörnin skellti í lás og fyrir aftan hana var Ágúst Elí Björgvinsson vel með á nótunum, en hann varði alls 19 skot í leiknum.

Litháar skoruðu aðeins eitt mark á síðustu 15 mínútum fyrri hálfleiks og þegar liðin gengu til búningsherbergja var staðan 15-5, Íslandi í vil.

Sturla Magnússon fór á kostum á línunni og skoraði sjö mörk í fyrri hálfleik, mörg hver eftir gullsendingar frá Ómari Inga Magnússyni, félaga hans í Val.

Íslensku strákarnir slökuðu aðeins á klónni í seinni hálfleik, en það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda. Gunnar Magnússon og Reynir Þór Reynisson, þjálfarar liðsins, dreifðu álaginu vel, enda stutt á milli leikja um helgina.

Ísland vann að lokum tólf marka sigur, 27-15, og byrjar undankeppnina vel.

Það eina sem skyggði á sigurinn var að hornamaðurinn Gunnar Malmquist Þórsson fékk að líta rauða spjaldið um miðjan seinni hálfleikinn og verður því í banni gegn Noregi á morgun.

Tekið af www.visir.is.