Ísland vann öruggan sigur á Austurríki, 30:22, á fjögurra landa móti í handbolta sem fram fer í Þýskalandi þessa helgina en leikið var í Krefeld í dag. Mótið er liður í undirbúningi Íslands fyrir EM í Danmörku.

Jafnt var í hálfleik, 11:11, en Ísland var mest þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik, 10:7. Lærisveinar Patreks Jóhannessonar skoruðu fjögur mörk gegn einu á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiks og jöfnuðu metin.

Austurríkismenn skoruðu svo fyrsta mark seinni hálfleiks og komust yfir í fyrsta og eina skiptið í leiknum, 11:12. Íslensku strákarnir svöruðu því með þremur mörkum í röð og komust afur í forystu, 14:12.

Aftur var jafnt, 14:14, eftir 37 mínútna leik en þá kom góður kafli hjá Íslandi og tólf mínútum síðar munaði fimm mörkum á liðunum, 21:16, og ellefu mínútur eftir.

Eftir það var aldrei spurning um horu megin sigurinn myndi lenda. Íslenska liðið var einfaldlega sterkara og innbyrti á endanum átta marka sigur, 30:22.

Snorri Steinn Guðjónsson, sem spilaði ekkert gegn Rússlandi í gær vegna meiðsla, stýrði leik íslenska liðsins í dag nær allan tímann og gerði það vel.

Aron Pálmarsson var hvíldur og spilaði Ólafur Bjarki Ragnarsson nær allan leikinn í skyttustöðunni vinstra megin. Ólafur fór illa af stað og lét verja fyrstu þrjú skotin en hann hélt áfram að reyna og skilaði mjög góðu dagsverki annan daginn í röð. Gaman að sjá Ólaf Bjarka fullan sjálfstrausts.

Rúnar Kárason og Ásgeir Örn Hallgrímsson skiptu með sér hægri skyttustöðunni eins og í gær og stóðu sig báðir vel og þá var Þórir Ólafsson virkilega flottur í horninu hægra megin.

Í hinu horninu spilaði Bjarki Már Elísson fyrri hálfleikinn og skilaði einu marki en Stefán Rafn Sigurmannsson spilaði seinni hálfleikinn og skoraði þrjú mörk.

Varnarleikur liðsins var mun betri en í gær og það skilaði betri markvörslu. Aron Rafn Eðvarðsson stóð vaktina í markinu allan leikinn og varði 18 skot. Aron frábær í dag.

Aron Kristjánsson rúllaði vel á liðinu í dag og leyfði minni spámönnum á borð við Gunnar Steini Jónsson og Árna Steini Steinþórssyni að spila nokkrar mínútur en þeir skoruðu sitthvort markið. Í heildina var sigur Íslands góður og mjög sanngjarn.

Ísland mætir gestgjöfum Þýskalands í lokaleiknum á morgun og nægir jafntefli til að vinna mótið. Rússland og Þýskaland mætast síðar í dag.

Mörk Íslands:Þórir Ólafsson 5/1, Ólafur Bjarki Ragnarsson 4, Ólafur Guðmundsson 4, Stefán Rafn Sigurmannsson 3,Ásgeir Örn Hallgrímsson 3, Rúnar Kárason 3, Snorri Steinn Guðjónsson 2, Róbert Gunnarsson 2, Árni Steinn Steinþórsson 1, Kári Kristján Kristjánsson 1, Gunnar Steinn Jónsson 1, Bjarki Már Elísson 1.

Varin skot:Aron Rafn Eðvarðsson 18 (þar af 6 aftur til mótherja).

Tekið af mbl.is.