Það er nú ljóst hvaða lið mætast í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildar karla í ár.

Íslandsmeistarar Vals voru með bakið upp við vegg fyrir leikinn í Hafnarfirði og þurftu sigur til að knýja fram oddaleik. En það er skemmst frá því að segja að þeir sáu aldrei til sólar erftir að leikurinn hófst, slíkur var varnarleikur Hauka og markvarsla Björgvins Páls. Jafnt og þétt juku heimamenn muninn og unnu loks sannfærandi 10 marka sigur 29-19.

Það var þó ögn meiri spenna í Garðabænum þar sem heimamenn tóku á móti Selfyssingum í hörkuleik. Stjarnan, sem var 1-0 undir í einvíginu, hafði frumkvæðið nær allan leikinn og það var ekki fyrr en á lokamínútunum að Selfoss náði forystu sem dugði til leiksloka. Lokatölur 28-30 Selfoss í vil.

Öll einvígin í 8-liða úrslitum enduðu því 2-0 en það er nokkuð ljóst að rimmurnar sem framundan eru verða jafnari og það skildi engan undra þó við sæjum oddaleiki á báðum vígstöðum.

Leikirnir í undanúrslitum eru því ÍBV – Haukar og Selfoss – FH.

Leiktímar fyrir einvígin munu liggja fyrir eftir skamma stund.

 

Við viljum svo að lokum að sjálfsögðu minna á úrslitaeinvígi kvenna sem hefst í kvöld að Hlíðarenda þegar að Valur og Fram mætast í stórveldaslag.

Leikurinn hefst kl. 19.30 og verður
í beinni á Stöð 2 Sport, en upphitun fyrir leikinn hefst kl. 19.15 og svo tekur Seinni bylgjan við eftir leik.

 

Allir á völlinn og styðjum okkar lið!