ÍBV skrifaði nafn sitt í sögubækurnar með því að leggja FH-inga af velli í Kaplakrika 20-28 og tryggja sér þar með þriðja stóra titilinn í ár. Áður höfðu Eyjamenn unnið deildarmeistaratitilinn og bikarmeistaratitilinn á þessu tímabili. Sigurinn á Hafnfirðingum var sanngjarn en heimamenn eiga þó hrós skilið fyrir frábæra baráttu og flottan handbolta í einvíginu.

Stórkostlegu handboltatímabili er þar með lokið og leikmenn fara í langþráð frí, það er að segja þeir sem ekki voru valdir í 30 manna hóp Guðmundar Þ. Guðmundssonar fyrir úrslitaleikina gegn Litháen um laust sæti á HM, en leikirnir fara fram 8. júní í Vilnius og svo 13. júní í Laugardalshöll.
Miðasala er hafin á Tix.is.

Um leið og við þökkum FH fyrir frábæra rimmu þá óskum við ÍBV hjartanlega til hamingju með árangurinn.

Fyrir hönd Olís, Stöð 2 Sport og HSÍ viljum við þakka liðunum og áhorfendum fyrir magnaðan vetur, sjáumst í haust.