Ólafur Indriði Stefánsson, einn leikreyndasti og dáðasti handknattleiksmaður þjóðarinnar, verður í þjálfarateymi Arons Kristjánsson, landsliðsþjálfara, í komandi verkefnum og tekur þar sæti Erlings Richardssonar. Erlingur tekur sem kunnugt er við þjálfun þýska úrvalsdeildarliðsins Füsche Berlin í sumar og hefur ekki verið með landsliðinu síðan á æfingamóti fyrir HM og vill HSÍ nota tækifærið og þakka Erlingi fyrir þann tíma sem hann var með karlalandsliðinu og óska honum jafnframt góðs gengis í nýju verkefni.

Ólaf þarf vart að kynna sérstaklega, enda er hann margreyndur atvinnumaður og lykilmaður í íslenska landsliðinu um áraraðir, hlaðinn verðlaunum og viðurkenningum og almennt talinn í hópi bestu handknattleiksmanna sem fram hafa komið. Hann þreytti frumraun sína sem þjálfari karlaliðs Vals með ágætum árangri.

Ólafur mun einnig spila stórt hlutverk í Afrekshópum HSÍ, sem hleypt verður af stokkunum innan skamms. Þessum afrekshópum er ætlað að efla, bæta og þróa unga leikmenn, bæði í karla- og kvennaflokki, og stytta leið þeirra að A-landsliðum. Reynsla Ólafs og þekking eru dýrmæt í þessu samhengi og endurkoma hans að A-landsliðinu gerir það að verkum að hann getur miðlað þeim áhersluatriðum sem unnið er með hjá landsliðinu beint til afrekshópanna.