Meistaradeild Evrópu | Gísli Þorgeir sá besti

Um helgina var leikið til úrslita í Meistaradeild Evrópu í Köln og til úrslita léku lið Magdeburg og Kielce. Í liði Magdeburg leika þeir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon. Ómar Ingi hefur verið frá vegna meiðsla og sama má segja um Hauk Þrastarson leikmann Kielce.

Gísli Þorgeir varð fyrir því óláni í undanúrslitaleiknum á laugardaginn gegn Barcelona að fara úr axlarlið og því var ekki vitað með aðkomu hans í úrslitaleiknum í gær. Gísli kom inn á þegar um 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik gegn Kielce í gær og lék það sem eftir lifði úrslitaleiksins. Spilaði hann frábærlega í alla staði og skoraði sex mörk í leiknum og var allt í öllu í liði Magdeburg í framlengingu leiksins sem sigraði Kielse 30 – 29.

Gísli Þorgeir var að lokum valinn besti leikmaður úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu.

HSÍ óskar Gísla Þorgeir og Ómari Inga til hamingju.