Í vetur verður tekin upp ný regla í meistaraflokki hér heima en stjórn HSÍ hefur fengið leyfi hjá IHF fyrir reglubreytingunni.

Þessi regla hefur verið prófuð í sumar á HM hjá u-19 ára landsliði karla og reyndist hún mjög vel. Því var ákveðið að taka hana upp til prufu hér á landi

Í stuttu máli er reglan sú að:

1. Lið má hafa sjö útileikmenn á vellinum samtímis. Þetta á við þegar markverði er skipt út af fyrir útileikmann. Það er ekki skylda að vera í búningi í sama lit og markvörðurinn.

2. Ef lið spilar með sjö útileikmenn þá má enginn útileikmaður fara í stöðu markvarðar, þ.e. enginn útileikmaður má fara inn í markteig til þess að taka stöðu markvarðar. Það er leyfilegt að spila með sjö útileikmenn utan markteigs hvenær sem er í leiknum.

3. Þegar um skiptingu er að ræða, þá gilda reglur 4:4-7 (hefðbundnar reglur við skiptingu leikmanna). Markvörður endurheimtir öll réttindi samkvæmt reglum 5 (Markvörðurinn) og 6 (Markteigurinn) þegar hann kemur aftur inn á.

4. Ef enginn af markvörðum liðsins getur komið inn á vegna refsinga eða meiðsla er leyfilegt að nota útileikmann við þær sérstöku aðstæður. Þessi leikmaður verður að vera í búningi markmanns eða að minnsta kosti ermalausri skyrtu í sama lit.

5. Eldri regla um að það megi skipta inn leikmanni í vesti fyrir markmann, sem þá má taka stöðu markmanns er enn í gildi.