Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu gerðu jafntefli við Slóveníu í síðasta æfingaleik sínum fyrir HM í Katar sem hefst á fimmtudaginn.

Slóvenar voru þó mun sterkari aðilinn lengst af í dag og leiddu í hálfleik, 18-15. Strákarnir leyfðu þeim þó aldrei að stinga af þó svo að það hafi lengst af vantað mikið upp á vörn og markvörslu í íslenska liðinu.

Björgvin Páll Gústavsson kom þó inn af miklum krafti á lokamínútum leiksins á bak við 3-2-1 vörnina sem Ísland spilaði á lokakaflanum. Hann varði fjögur skot í röð og Ísland var með frumkvæðið á lokakaflanum.

Vid Kavticnik jafnaði metin fyrir Slóveníu þegar 40 sekúndur voru eftir og Ísland fékk lokasóknina í leiknum. Aron Pálmarsson kom sér í fínt færi en Matevz Skok varði frá honum. Það var þó brotið á Aroni en slakir dómarar leiksins dæmdu ekkert.

Strákarnir geta þó fyrstu og fremst sjálfum sér um kennt. Ásgeir Örn Hallgrímsson lét verja frá sér úr opnu færi þegar tæpar tvær mínútur voru eftir og tapaði svo boltanum í næstsíðustu sókn Íslands.

Frammistaða Íslands í dag var ekki svipur hjá sjón samanborið við leikinn gegn Danmörku í gær, lengst af í leiknum. Slóvenar lentu ekki í neinum vandræðum við flata og bragðdaufa 6-0 vörn Íslands og markvarsla þeirra Björgvins Páls og síðar Arons Rafns Eðvarðssonar bætti ekkert úr málum.

Strákarnir voru því að elta allan leikinn en misstu þó Slóvena aldrei meira en fjórum mörkum frá sér. Aron Pálmarsson þurfti nokkrar mínútur til að stilla miðið en tók mikið til sín, rétt eins og Alexander Petersson.

Leikmenn voru þó duglegir að leita inn á Róbert á línunni sem skoraði sex mörk úr jafn mörgum skotum og fiskaði eitt víti þar að auki. Arnór Þór Gunnarsson skoraði einnig sex mörk, rétt eins og Alexander, og nýtti öll færin sín, eins og Róbert. Aron kom svo næstur með fimm mörk.

Tekið af visir.is