Íþróttamaður ársins | HSÍ á þrjá fulltrúa af ellefu efstu í kjöri til Íþróttamanns ársins 2022

Samtök íþróttafréttamanna opinberuðu í dag hvaða íþróttamenn enduðu í efstu tíu sætunum í kjöri samtakana á íþróttamanni ársins 2022. Í ár gerðist það að tveir voru jafnir að stigum í 10. – 11. sæti og því var birtur listi af 11 stiga hæstu íþróttamönnum ársins.

Handknattleikshreyfingin á þrjá fulltrúa af ellefu sem til greina koma sem íþróttamann ársins 2022. Það eru þeir Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og Viktor Gísli Hallgrímsson. Einnig á handknattleikshreyfingin þrjá af fjórum efstu í kjórinu um þjálfara ársins en það eru Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í handbolta og Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennalandsliðs Noregs í handbolta. Í kjörinu um lið ársins eru tvö handknattleikslið, Íslenska karlalandsliðið og meistaraflokkur Vals.

Ómar Ingi Magnússon, handknattleiksmaður með Magdeburg og íslenska karlalandsliðinu var kjörinn Íþróttamaður ársins 2021.

Kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni, liði og þjálfara ársins 2022 verður lýst í Hörpu 29. desember. Sýnt verður beint frá hófinu á RÚV klukkan 19:40.