Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik skipað leikmönnum 17 ára og yngri leikur síðasta leik sinn í undanriðli EM í Færeyjum í dag. Flautað verður til leiks Íslands og Tékklands klukkan 17 og þrátt fyrir að íslenska liðið hafi tapað báðum leikjum sínum til þessa á það raunhæfa möguleika á að komast áfram.

Íslensku stúlkurnar töpuðu fyrir Færeyingum með eins marks mun á föstudag og fyrir Rússum með átján marka mun í gær og eru stigalausar fyrir lokaumferðina sem fram fer í dag. Tékkar unnu Færeyinga með fjögurra marka mun í gær eftir að hafa tapað fyrir Rússum á föstudag og hafa því tvö stig, rétt eins og Færeyingar, en Rússar eru með fjögur stig og eru öruggir áfram.

Líklegt verður að telja að Rússar vinni Færeyinga í dag og gangi það eftir opnar það möguleika fyrir íslenska liðið. Vinni Ísland Tékkland með að minnsta kosti þriggja marka mun tryggir Ísland sér annað sæti riðlisins og þar með sæti í úrslitakeppninni í Madedóníu í ágúst. Ísland, Tékkland og Færeyjar yrðu þá jöfn að stigum og markamunur í innbyrðis viðureignum þessara þriggja liða réði niðurröðuninni; Ísland, miðað við þriggja marka sigur gegn Tékklandi, væri með tvö mörk í plús, Tékkland með eitt mark í plús og Færeyjar með þrjú mörk í mínus.

Leikur Íslands og Tékklands hefst eins og áður segir klukkan 17 í dag og verður í  beinni netútsendingu á heimasíðu færeyska handknattleikssambandsins,
www.hsf.fo.