Íslensku strákarnir í u19 spiluðu fyrsta leik sinn í Nations Cup í Lubeck og sigruðu jafnaldra sína frá Hollandi 34 – 27.

Hollendingar voru með frumkvæðið í fyrri hálfleik og voru með 2ja- 4ja marka forystu allan hálfleikinn og leiddu 16-14 Þegar blásið var til leikhlés.

Það var allt annar bragur á íslenska liðinu í byrjun seinni hálfleiks og söxuðu þeir á forystuna jafnt og þétt og komust svo yfir 23-22 þegar um 15 mínútur voru eftir af leiknum. Eftir það var ekki aftur snúið og unnu strákarnir öruggan sígur 34-27. Ísak Steinsson markvörður átti stórleik og varði 15 skot. Ívar Bessi Viðarson átti frábæra innkomu í vörn íslenska liðsins í seinni hálfleik og átti stóran þátt í endurkomu íslenska liðsins. Reynir Stefánsson átti mjög góðan leik í sókninni og skoraði 10 mörk.

Markaskorarar voru eftirfarandi.

Reynir Stefansson 10, Daníel Örn Guðmundsson 6, Andri Fannar Elísson 5, Kjartan Þór Júlíusson 3, Eiður Rafn Valsson 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 1, Atli Steinn Arnarsson 1 og Hinrik Hugi Heiðarsson 1.

Ísak Steinsson varði 15 skot

Næsti leikur íslenska liðsins er annaðkvöld á móti gestgjöfunum frá Þýskalandi kl 18:30 að íslenskum tíma.