Ísland er komið í 16-liða úr­slit á HM í Kat­ar og mæt­ir þar Dön­um. Ísland vann Egypta­land 28:25 í lokaum­ferð C-riðils heims­meist­ara­móts karla í hand­knatt­leik í Doha í Kat­ar klukk­an 16.00. Ísland hafn­ar í 3. sæti riðils­ins á eft­ir Frökk­um og Sví­um. Egypta­land er í 4. sæti og Tékk­ar sitja eft­ir.

Ísland er með 50% ár­ang­ur í riðlakeppn­inni, vann tvo leiki, gerði eitt jafn­tefli og tapaði tveim­ur. Töp­in voru hins veg­ar mjög slæm og lita ár­ang­ur­inn tölu­vert. Nú byrja öll liðin upp á nýtt og út­slátt­ar­keppni tek­ur við.

Fyr­irliðinn Guðjón Val­ur Sig­urðsson fór fyr­ir liðinu í dag og skoraði 13 mörk í 15 skot­um að ég held. Hann sagði eft­ir tap­leik­inn gegn Tékk­um eitt­hvað á þá leið að landsliðsmenn­irn­ir myndu bara skipta um kenni­tölu fyr­ir leik­inn gegn Egypt­um eins og Íslend­ing­um sæm­ir og byrja upp á nýtt. Hvort sem Fyr­ir­tækja­skrá rík­is­skatts­stjóra náði að taka er­indið fyr­ir í tæka tíð eða ekki þá var Guðjón alla vega í mikl­um ham og spilaði frá­bær­lega. Hans lang­besti leik­ur til þessa í Kat­ar.

Björg­vin Páll Gúst­avs­son stóð sig mjög vel í mark­inu og varði til að mynda 3 víta­köst og mun­ar um minna. Alls varði hann 14 skot. Þá var Ásgeir Örn Hall­gríms­son drjúg­ur og skoraði fimm mörk, þar af fjög­ur í fyrri hálfleik þegar ís­lenska liðið vann sig inn í leik­inn.

Íslenska liðið byrjaði nefni­lega ekki vel í leikn­um og var það í fjórða skiptið í fimm leikj­um í keppn­inni sem liðið byrj­ar illa á upp­haf­smín­út­un­um. Ísland lenti 1:4 und­ir en sneri dæm­inu við og var yfir 15:10 að lokn­um fyrri hálfleik. Ísland náði mest sex marka for­skoti í síðari hálfleik en þá söxuðu Egypt­ar for­skotið niður í aðeins eitt mark en lengra komust þeir ekki.

Gunn­ar Steinn Jóns­son kom inn í leik­manna­hóp­inn fyr­ir Aron Pálm­ars­son og var fersk­ur. Gunn­ar skoraði 3 mörk og var áræðinn gegn 3-2-1-vörn Egypta. Hans fyrsti leik­ur á HM í Kat­ar. 

Tekið af mbl.is.