Fyrr í dag tilkynnti Alþjóða handknattleikssambandið um útnefningu á þjálfarum ársins í karla- og kvennaflokki. Þar urðu fyrir valinu Dagur Sigurðsson þjálfari þýska karla landsliðsins og Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins.

Það er mikill heiður fyrir okkur Íslendinga að eiga þjálfara ársins bæði í karla- og kvennaflokki hjá IHF og sýnir sterka stöðu okkar í heimi alþjóðahandboltans.

Hér er stiklað á stóru yfir feril þeirra Dags og Þóris:

Dagur Sigurðsson er 42 ára Reykvíkingur, uppalinn hjá Val en fór síðar í atvinnumennsku í Þýskalandi, Japan og Austurríki. Dagur spilaði 215 landsleiki og skoraði í þeim 397 mörk, auk þess var hann fyrirliði landsliðsins um nokkurra ára skeið. Dagur hóf þjálfara ferilinn hjá Wakunaga Hiroshima í Japan, næst lá leiðin Bregenz í Austurríki og þá tók hann við Austurríska landsliðinu. Dagur þjálfaði Füchse Berlin 2009-2015 og gerði liðið meðal annars að Evrópumeisturum (EHF-bikarinn) árið 2015 þar sem liðið sigraði Hamburg í úrslitum. Dagur tók við þýska landsliðinu árið 2014 og í dag einbeitir hann sér alfarið að þjálfun þess. Dagur gerði Þjóðverja að Evrópumeisturum í janúar s.l.

Þórir Hergeirsson er 51 árs gamall Selfyssingur. Hann þjálfaði fyrst í Noregi hjá Elverum, Gjerpen og Nærbø IL en frá 2001 hefur Þórir verið í starfsliði norska kvennalandsliðsins. Árið 2009 tók hann við sem þjálfari liðsins. Undir stjórn Þóris hefur norska kvenna landsliðið unnið 2 heimsmeistaratitla (2011 og 2015), 2 Evrópumeistaramótstitla (2010 og 2014) ásamt því að verða Ólympíumeistarar í London 2012.