HSÍ | Yfirlýsing frá Gróttu

Síðastliðinn þriðjudag fór fram leikur Gróttu gegn ÍR í umspili um laust sæti í Olís deild kvenna næsta tímabil. Lítill hópur stuðningsmanna lét ummæli falla í garð nokkurra leikmanna ÍR liðsins, sem voru engan veginn til fyrirmyndar.

Handknattleiksdeild Gróttu harmar ummælin og biður alla hlutaðeigandi afsökunar á atvikinu.  Háttsemi sem þessi er úr öllum takti við það sem félagið vill standa fyrir. Gildir einu við hvaða aðstæður ummælin eru látin falla eða til hverra þau ná. Þau eru í andstöðu við siðareglur Íþróttafélagsins Gróttu og stefnu handknattleiksdeildar.

Rétt er að fram komi að viðkomandi einstaklingar harma atvikið sömuleiðis og hefur afsökunarbeiðni verið komið á framfæri til leikmanna ÍR.

Handknattleiksdeild Gróttu vill af þessu tilefni árétta að handknattleiksíþróttin á að vera uppbyggileg, sameiningarafl og gleðigjafi. Því ber okkur í hvívetna að umgangast hvert annað af virðingu. Verður þess sérstaklega gætt að slíkt atvik eigi sér ekki stað aftur á vegum félagsins.