HSÍ | Ómar Ingi Magnússon Íþróttamaður ársins 2022

Í kvöld var íþróttamaður ársins útnefndur af Samtökum íþróttafréttamanna í beinni útsendingu á RÚV. Handknattleikur átti þar þrjá fulltrúa af ellefu efstu eftir frábæran árangur þeirra með sínum félagsliðum og landsliði en það voru Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og Viktor Gísli Hallgrímsson. Handknattleikshreyfingin átti einnig tvö lið í kjöri um lið ársins en það voru íslenska karlalandsliðið og meistaraflokkur Vals. Þrír af fjórum í kjöri samtakanna um þjálfara ársins í kvöld koma úr handboltanum en það eru Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðsins, Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals og Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennalandsliðs Noregs í handbolta.

Samtök íþróttafréttamanna völdu Ómar Inga Magnússon sem íþróttamann ársins 2022 og er þetta annað árið í röð sem Ómar hlýtur þessa viðurkenningu. Ómar Ingi Magnússon er handboltamaður hjá Magdeburg í Þýskalandi. Ómar Ingi var Þýskalandsmeistari í handknattleik í vor auk þess sem lið hans vann IHF Super Globe annað árið í röð og lenti í 2. sæti í Evrópudeildinni í handknattleik. Ómar Ingi var næst markahæstur allra leikmanna í deildinni en í lok tímabilsins var hann valinn besti leikmaður þýsku deildarinnar. Með landsliðinu náði Ómar 6. sæti á EM í Ungverjalandi og Slóvakíu þar sem hann var valinn í lið mótsins. Ómar Ingi varð jafnframt markakóngur mótsins en hann skoraði 59 mörk á mótinu.

Þórir Hergeirsson var kjörinn þjálfari ársins og er þetta annað árið í röð sem Þórir hlýtur þessa viðkenningu. Þórir náði frábærum árangri með kvennalandslið Noregs í handbolta. Þórir og norsku stelpurnar urðu nýverið Evrópumeistarar í handbolta.

Meistaraflokkur Vals í handbolta var kjörið lið ársins 2022. Valsmenn eru ríkjandi bikarmeistarar, deildarmeistarar og Íslandsmeistarar. Jafnframt hefur liðið á þessu ári tekið þátt í Evrópudeild EHF og náð þar frábærum árangri

HSÍ óskar Ómari Inga Magnússyni, Þóri Hergeirssyni, meistaraflokki Vals og handboltafólkinu okkar til hamingju með verðlaunin og tilnefningar sínar í kvöld.