HSÍ | Ómar Ingi Magnússon Íþróttamaður ársins 2021

Í kvöld var íþróttamaður ársins útnefndur af Samtökum íþróttafréttamanna í beinni útsendingu á RÚV. Handboltinn átti þar fjóra fulltrúa af tíu efstu eftir frábæran árangur þeirra með sínum félagsliðum en það voru Aron Pálmarsson, Bjarki Már Elísson, Ómar Ingi Magnússon og Rut Arnfjörð Jónsdóttir. KA/Þór var tilnefnd eitt af þremur liðum ársins og Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennalandsliðs Noregs í handbolta var tilnefndur sem þjálfari ársins.

Samtök íþróttafréttamanna völdu Ómar Inga Magnússon sem íþróttamann ársins 2021. Ómar Ingi Magnússon er handboltamaður hjá Magdeburg í Þýskalandi. Ómar Ingi var markakóngur efstu deildar í Þýskalandi í vor og átti næstflestar stoðsendingar. Hann var valinn í lið ársins í Þýskalandi. Í haust hefur Ómar verið mikilvægur fyrir Magdeburg, sem trónir taplaust á toppi þýsku deildarinnar, enda meðal markahæstu og bestu leikmanna í deildinni. Magdeburg vann Evrópudeildina í handbolta og heimsmeistaramót félagsliða þar sem liðið vann Barcelona í úrslitum. HM í Egyptalandi var fyrsta stórmót Ómars með landsliðinu í tvö ár, eftir að hafa misst rúmt ár úr keppni vegna höfuðmeiðsla.
Þetta er í fyrsta sinn sem Ómar Ingi Magnússon er meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins.

Þórir Hergeirsson var kjörinn þjálfari ársins, en Þórir náði frábærum árangri með kvennalandslið Noregs í handbolta. Þórir og norsku stelpurnar urðu nýverið Heimsmeistara en einnig endaði norska landsliðið í þriðja sæti Ólympíuleikana.

HSÍ óskar Ómari Inga Magnússyni, Þóri Hergeirssyni og handboltafólkinu okkar til hamingju með verðlaunin og tilnefningar sínar í kvöld.