Í framhaldi af auglýsingu heilbrigðisráðuneytisins um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sem útgefin var 12. ágúst síðastliðinn, hafa stjórnir HSÍ og KKÍ samþykkt reglur um sóttvarnir á æfingum og æfingaleikjum vegna COVID-19. Samböndin leggja mikla áherslu á að vel takist til svo hægt verði að æfa og keppa íþróttirnar á komandi keppnistímabili. Við viljum því beina því til aðildarfélaga okkar að kynna sér reglurnar mjög vel og kynna þær sérstaklega vel fyrir starfsmönnum, þjálfurum og leikmönnum.

Þær reglur hafa nú verið staðfestar af ÍSÍ og heilbrigðisyfirvöldum og geta æfingar og æfingaleikir hjá íþróttamönnum fæddum 2004 og fyrr því hafist að nýju frá og með 14. ágúst, að fenginni staðfestingu hjá skrifstofu HSÍ.

Markmið þessara reglna er að tryggja að umgjörð leikja og æfinga í handknattleik og körfuknattleik verði með þeim hætti að hægt sé að leika íþróttirnar á Íslandi þrátt fyrir að COVID-19 sé við lýði í íslensku samfélagi og útlit fyrir að svo kunni að vera áfram næstu misseri.

Þær reglur gilda þar til annað er kynnt af HSÍ og KKÍ. Í samræmi við þessar reglur óska HSÍ og KKÍ eftir því að öll aðildarfélög tilkynni hver sé þeirra sóttvarnarfulltrúi (með tengiliðaupplýsingum) til síns sérsambands og að því loknu geta þau fengið leyfi til að æfa. Listi sóttvarnarfulltrúa félaga verður birtur á heimasíðu sérsambands.

Reglurnar má finna hér.