Á hádegi í dag, 31. júlí, tók gildi ný auglýsing heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og er gildistími hennar til 13. ágúst næstkomandi. Markmið breytinganna sem nú taka gildi er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins, sem því miður er nú aftur í vexti hér á landi.

 

ÍSÍ óskaði eftir nánari útlistun frá sóttvarnarlækni varðandi íþróttastarfsemi fullorðinna og fékk þessi tilmæli til baka:

 

1.     Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi. 

2.     Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.

3.     Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.

 

Telur HSÍ að þetta girði fyrir notkun á bolta á æfingum (bæði sendingar og skot) og æfingar sem fela í sér snertingu á milli leikmanna. Ath. að hér er eingöngu átt við æfingar fullorðinna (16 ára og eldri) á ofangreindu tímabili.

 

HSÍ vill ítreka við forsvarsmenn og þjálfara félaganna að fara í einu og öllu eftir tilmælum stjórnvalda þegar kemur að starfi félaganna. Ef einhverjar spurningar vakna þá er sjálfsagt að hafa samband við skrifstofu HSÍ sem mun áfram vera í beinu sambandi við forystufólk hreyfingarinnar og yfirvalda í þessu sambandi. 

 

Nánar má lesa um þessi tilmæli á heimasíðu ÍSÍ, SJÁ HÉR.