Olísdeildin og Píeta samtökin, sem einbeita sér að forvörnum gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, hafa tekið höndum saman og vinna nú í sameiningu að vitundarvakningu og söfnun fyrir samtökin. Söfnunin fer fram á pieta.is.  

Í auglýsingaherferð, sem nú er hleypt af stokkunum, eru nokkrar af handboltastjörnum Olísdeildarinnar í aðalhlutverki, og fara þar með Píeta yfirlýsingu sem hvetur okkur til að vera til staðar fyrir þá sem líður illa og að tala upphátt um hlutina. 

Yfirlýsingin er eftirfarandi:  
,,Ég vil vera til staðar fyrir alla sem líður illa og leita til mín. Ég ætla ekki að standa aðgerðarlaus hjá ef mig grunar að einhver nálægt mér glími við vanlíðan, og gera mitt besta til að aðstoða. Án þess þó að ganga of nærri mér eða viðkomandi – en hvetja til að leita aðstoðar sérfræðinga ef þurfa þykir. Enginn ætti að burðast einn með sársauka. Ég vildi bara segja þetta upphátt.“ 

Auglýsinguna má sjá á

heimasíðu Píeta, hér. 

,,
Það er okkur ómetanlegur stuðningur að fá íþróttahetjurnar okkar í Olísdeildinni, sameiningartákn þjóðarinnar, til liðs við okkur. Samfélagið væri allt betra ef við færum öll eftir þeirri yfirlýsingu sem íþróttahetjurnar lesa upp. Með yfirskriftinni ,,Segðu það upphátt“ er verið að minna á mikilvægi þess að tala opinskátt um hlutina, leita í vinina, baklandið eða til fagfólks ef þér líður illa. En ekki síður mikilvægi þess að við hin látum öll vita af því að við séum til staðar fyrir alla þá sem standa okkur nærri og glíma við slíka vanlíðan að við ætlum ekki að standa aðgerðalaus hjá, við séum tilbúin til að hlusta og aðstoða eða í það minnsta hjálpa viðkomandi að leita sér aðstoðar,” segir Sirrý Arnardóttir, framkvæmdastjóri Píeta samtakanna. Eftir páska 2018 verður opnuð sjálfsvígs- og sjálfsskaðamiðstöð í húsnæði samtakanna er á Baldursgötu 7 í Reykjavík.
 

,,
Við erum afskaplega stolt af því að geta lagt hönd á plóginn og styðja við þetta mikilvæga átak. Fólk er að glíma við alvarlega erfiðleika í okkar samfélagi og ég vil hrósa Píeta samtökunum fyrir að sýna það hugrekki að opna þessa umræðu. Við hvetjum alla landsmenn og fyrirtæki að leggja Píeta-samtökunum og þessu brýna málefnu lið,” segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.
 

Formaður HSÍ, Guðmundur B. Ólafsson, hafði þetta að segja um samstarfið: ,,
HSÍ er afskaplega stolt af því að geta orðið PÍETA að liði í þessu mikilvæga málefni. Það á enginn að burðast einn með sársauka eins og segir í yfirlýsingunni og vonandi getur kraftur Olísdeildar karla og kvenna orðið öðrum hvatning í að aðstoða þá sem það þurfa. Sýnum hvort öðru stuðning og verum til staðar, Olísdeildin vill hjálpa að segja það upphátt.”


Fyrir alla leiki í Olísdeildinni á næstunni verður minnt á átakið með táknrænni athöfn. Leikmenn beggja liða ganga þá fram á gólfið og leggja hönd yfir öxl meðan yfirlýsingin verður flutt í hljóðkerfi.  

Á myndinni, sem tekin var á blaðamannafundi í húsakynnum Píeta að Baldursgötu 7 í dag, eru Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfoss, Þórey Rósa Stefánsdóttir landsliðskona og leikmaður Fram, Eliza Reid, forsetafrú og verndari Píetasamtakanna, og Sirrý Arnardóttir, framkvæmdastjóri Píeta samtakanna.