Arion banki og Handknattleikssamband Íslands hafa endurnýjað samning sín á milli og var það gert í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19, fyrr í dag.

Strákarnir okkar létu sig að sjálfsögðu ekki vanta og stilltu sér upp ásamt starfsfólki Arion banka fyrir myndatöku. Landsliðið fann stund á milli stríða því undirbúningur fyrir EM í Króatíu í janúar næstkomandi er í fullum gangi þessa dagana og spila strákarnir seinni vináttuleik sinn við Svía á morgun, laugardaginn 28. október, í Laugardalshöll kl. 14.00.

Arion banki hefur stutt dyggilega við bakið á landsliðunum um árabil og er það afar mikilvægt fyrir íslenskan handknattleik að sá stuðningur sé nú tryggður áfram.

Báðir aðilar lýsa yfir ánægju sinni með þennan samning og vonast til þess að eiga áframhaldandi gott samstarf í framtíðinni.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá Höskuld H. Ólafsson bankastjóra Arion banka og Guðmund B. Ólafsson formann HSÍ við undirritun samningsins.