Handknattleikssamband Íslands og Valitor hafa endurnýjað samstarfssamning sín á milli. Valitor hefur undanfarna áratugi verið bakhjarl HSÍ og fagnar HSÍ því að endurnýja samstarfssamning sinn við Valitor. Samingurinn inniheldur meðal annars stuðning fyrirtækisins við kvenna- og karlalandslið sambandsins svo og grasrótarstarfsemi HSÍ á Íslandi með það fyrir augum að efla afreksfólk framtíðarinnar hjá HSÍ. Vörumerki Valitor verður áfram áberandi á landsliðstreyjum landsliða Íslands eins og undanfarin ár enda orðin þekkt tenging milli HSÍ og Valitor. 

 

Stór verkefni eru framundan hjá HSÍ á þessu ári. A landslið karla heldur leikjum sínum í umspili fyrir EM 2020.  A landslið kvenna spilar í maí og júní umspilsleiki fyrir HM2019 sem haldið verður í Japan. U21 landslið karla hefur tryggt sér þáttöku rétt á HM á Spáni í júlí og í ágúst heldur U19 karla til Makedóníu til þátttöku á HM. U17 karla hefur tryggt sér þáttökurétt á Opna Evrópumótinu í Gautaborg og Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Bakú og U19 og U17 kvenna taka þátt í B-deildum EM í Búlgaríu og Ítalíu.

“Við hjá Valitor erum stolt af því að hafa lagt okkar af mörkum til handboltans á Íslandi. Í áratugi höfum við hjálpað afreksfólki að rækta hæfileika sína til að gera þeim kleift að ná sem lengst á sínu sviði. Það hefur verið einstakur heiður að taka þátt í stórum sem smáum sigrum handboltans á Íslandi á undanförnum árum” segir Viðar Þorkelsson forstjóri Valitor.





“Stuðningur frá íslensku atvinnulífi við HSÍ er algjörlega ómetanlegur. Valitor hefur verið traustur bakhjarl HSÍ um áratuga skeið og er það mikilvægt fyrir íslenskan handknattleik að sá samstarfssamningur sé núna endurnýjaður“. segir Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri HSÍ.





HSÍ lýsir yfir ánægju sinni með þennan samning og vonast til þess að eiga gott samstarf við Valitor í framtíðinni. 

 










Frá undirskrift samnings HSÍ og Valitor, frá vinstri Guðjón Valur Sigurðsson, Guðmundur Guðmundsson, Viðar Þorkelsson forstjóri Valitor, Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ, Ólafur Guðmundsson og Arnór Þór Gunnarsson.