HSÍ og Bláa Lónið hafa gert með sér samstarfssamning og felst hann í stuðningi Bláa Lónsins á hæfileikamótun HSÍ sem er eitt allra mikilvægasta verkefni sambandsins um þessar mundir.

Í hæfileikamótuninni leitar HSÍ markvisst að framtíðarstjörnum íslenska handboltans og eru það stelpur og strákar á aldrinum 13-14 ára sem njóta góðs af. Haldin eru námskeið og æfingar víðsvegar á landinu yfir eina helgi þar sem HSÍ undirbýr krakkana fyrir komandi unglingalandsliðsverkefni. 

Með dyggum stuðningi Bláa Lónsins er nú hægt að gefa fleiri krökkum tækifæri á að sýna hæfileika sína sem og að Handknattleikssambandið getur aukið samskipti sín við aðildarfélög um allt land varðandi þjálfun á framtíðarstjörnum handboltans. 

Stuðningur Bláa Lónsins er því gríðarlega mikilvægur og rímar vel við A-landsliðin okkar, þar sem margar ungar vonarstjörnur eru að stíga sín fyrstu skref á stóra sviðinu bæði hjá kvenna og karlalandsliðinu. Góður undirbúningur fyrir slíka eldskírn er afar mikilvægur.

Báðir aðilar lýsa yfir ánægju sinni með þennan samning og vonast til þess að eiga gott samstarf  í framtíðinni.

Heimasíða Bláa Lónsins.