HSÍ | Handknattleiksfólk ársins 2023

Handknattleikskona ársins


Handknattleikskona ársins 2023 er Sandra Erlingsdóttir, 25 ára leikstjórnandi TuS Metzingen í Þýskalandi og A landsliðs kvenna.

Sandra lék í stórt hlutverk með Tus Metzingen í þýsku úrvalsdeildinni auk þess sem liðið komst í Final 4 í bikarkeppninni.  Sandra m.a. valin besti leikmaður 1. umferðar þýsku úrvalsdeildarinnar. Sandra er ein burðarása kvennalandsliðsins sem tók nýverið þátt í HM 2023 og vann Forsetabikarinn. Sandra skoraði 34 mörk HM og var markahæsti leikmaður Íslands á HM og einnig markahæsti leikmaður Íslands á HM frá upphafi.

Sandra er frá Vestmannaeyjum og lék bæði með ÍBV og HK í yngri flokkum auk þess sem að vera um tíma með Füchse Berlin í Þýskalandi þegar fjölskylda hennar bjó ytra. Þegar hún flutti aftur heim fór Sandra, 18 ára,  að leika með meistaraflokki ÍBV og lék þar í 2 ár þar til hún skipti til Vals sumarið 2018. Hún varð Íslandsmeistari með Val vorið 2019 og fór árið eftir í atvinnumennsku í Danmörku þaðan sem hún fór sumarið 2022 til Þýskalands.

Sandra hefur leikið 32 leiki með kvennalandsliðinu og skorað í þeim 145 mörk.

Handknattleiksmaður ársins

Handknattleiksmaður ársins er Gísli Þorgeir Kristjánsson, 24 ára leikstjórnandi Madgeburg í Þýskalandi og A landsliðs karla.

Gísli Þorgeir vann í vor ásamt liðsfélögum sínum í Magdeburg Meistaradeild EHF ásamt því fá silfurverðlaun í þýsku bikarkeppninni. Gísli Þorgeir var valinn mikilvægasti leikmaður Final 4 úrslitahelgi Meistaradeildarinnar ásamt því að vera valinn besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar og besti leikmaður Magdeburg á síðustu leiktíð.

Gísli Þorgeir er Hafnfirðingur og lék alla yngri flokka með FH. Hann spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik með FH árið 2015. Árið 2018 gerði Gísli Þorgeir samning við THW Kiel og lék með liðinu þangað til í upphafi árs 2020 þegar hann færði sig til Magdeburg þar sem hann leikur í dag.

Með landsliðinu lék Gísli Þorgeir á HM í Svíþjóð og Póllandi í janúar en á árinu tók hann þátt í 12 landsleikjum og skorað í þeim 37 mörk. Gísli á að baki 51 landsleik sem hann hefur skorað í 113 mörk.