Handknattleikskona ársins
Handknattleikskona ársins 2020 er Steinunn Björnsdóttir, línumaður Fram og A landsliðs kvenna.

Steinunn er fyrirliði Fram sem varð deildar- og bikarmeistarar í vor. Hún alla átján leiki liðsins í Íslandsmótinu og skoraði 96 mörk. Fram liðið varð deildarmeistari með því að sigra sautján leiki og tapa einungis einum áður en Covid-faraldurinn endaði tímabilið. Seinni bylgjan valdi Steinunni besta leikmann Íslandsmótsins, besta varnarmanninn og þá var Steinunn einnig í liði ársins.

Steinunn hefur leikið 35 landsleiki með A landsliði kvenna og skoraði í þeim leikjum 27 mörk, Steinunn var fyrst valinn í A landslið kvenna 2012.

Steinunn er 29 ára, er uppalin í Fram og spilaði með yngri flokkum félagsins. Hún hóf að leika með meistaraflokki Fram veturinn 2009 – 2010. Í dag hefur Steinunn leikið tæplega 300 leiki með meistaraflokki Fram.

Steinunn er fyrirmynd fyrir yngri jafnt sem eldri handknattleiksiðkendur, hvort sem er innan vallar eða utan.

Handknattleiksmaður ársins
Handknattleiksmaður ársins er 2020 er Aron Pálmarsson, vinstri skytta og leikstjórnandi hjá spænska meistaraliðinu Barcelona og A landsliði karla.

Aron varð þrefaldur meistari á Spáni á síðasta keppnistímabili með Barcelona auk þess sem Aron og liðsfélagar hans tryggðu sér sæti í úrslitahelgi Meistarardeildar Evrópu sem fram með nú milli jóla og nýárs.

Aron er 30 ára gamall, hann lék upp alla yngri flokkana með FH og lék sinn fyrsta meistaraflokks leik með liðinu í mars 2006. 19 ára gekk Aron til liðs við THW Kiel í Þýskalandi og lék hann með þeim í sex ár. Árið 2015 færði Aron sig um set til Veszprém í Ungverjalandi. 2017 skipti Aron til Barcelona á Spáni og hefur leikið með þeim síðan þá.
29. október 2008 lék Aron sinn fyrsta A-landsleik, hann hefur leikið 149 landsleiki og skorað í þeim 579 mörk. Aron er fyrirliði landsliðsins í dag.

Sem atvinnumaður í handknattleik er Aron einstök fyrirmynd fyrir unga handknattleiksiðkendur bæði hér heima og erlendis. #handbolti #strakarnirokkar #stelpurnarokkar