Í samræmi við yfirlýsingu frá ÍSÍ þann 15. mars sl. þá vill HSÍ koma eftirfarandi á framfæri við sín aðildarfélög og iðkendur:

 

ÍSÍ, landlæknir, sóttvarnarlæknir og almannavarnardeild ríkislögreglustjóra mælast til þess að íþróttastarf grunnskólabarna og yngri fari ekki af stað fyrr en mánudaginn 23. mars nk. á meðan verið er að útfæra þær takmarkanir sem í samkomubannið felur í sér.

 

Vegna þessa vill HSÍ beina því til allra aðilarfélaga að fresta öllum handknattleiksæfingum þessa hóps til 23. mars nk. þar til nánari útfærslur berast.

 

Æfingar eldri hópa (16 ára og eldri) eru heimilar með þeim takmörkunum sem birtar hafa verið um samkomubann þ.e. ekki fleiri en 100 í sama rými, a.m.k. 2 metrar á milli einstaklinga og kröfur um tiltekin þrif eins og kemur fram í auglýsingu ráðherra. Það kemur skýrt fram frá ÍSÍ og yfirvöldum að þessar takmarkanir skal túlka þröngt og engan afslátt á að gefa af þessum kröfum til að sem mestur árangur náist.
Telur HSÍ að þetta girði fyrir notkun á bolta á æfingum (bæði sendingar og skot), þar til frekari leiðbeiningar berast frá yfirvöldum.

 

HSÍ vill ítreka við forsvarsmenn og þjálfara félaganna að fara að einu og öllu eftir tilmælum stjórnvalda þegar kemur að hverskonar starfi félaganna á meðan samkomubanninu stendur. Ef einhverjar spurningar vakna þá er sjálfsagt að hafa samband við skrifstofu HSÍ sem mun áfram vera í beinu sambandi við forystufólk hreyfingarinnar og yfirvalda í þessu sambandi.