Nýtt meistaranám í íþróttavísindum með áherslu á frammistöðugreiningu í íþróttum

Meginmarkmið frammistöðugreiningar í íþróttum, m.a. handbolta, er að aðstoða þjálfara og leikmenn við að taka betri ákvarðanir, ákvarðanir sem eru byggðar á gögnum.  Einstaklingar með þekkingu frammistöðugreiningu eru eftirsóttir starfskraftar í íþróttaheiminum og er líklega sú starfstétt innan íþróttaheimsins sem er að vaxa hvað mest.  Í stærstu íþróttafélögum heims eru heilu deildirnar sem sjá um frammistöðugreiningu þar sem hver greinandi hefur sitt hlutverk.  Hérlendis hefur orðið hröð framþróun í frammistöðugreiningu og handboltaþjálfarar hafa notað slíka greiningu að hluta til m.a. með myndbandsgreiningarforritum. 

Nú er í fyrsta skipti á Íslandi í boði nám í frammistöðugreiningu og eru kennarar námsins framarlega í heiminum í sínu fagi.

Tvær leiðir eru í boði:

MSc í Íþróttavísindum með áherslu á frammistöðugreiningu.  Um er að ræða 120 ECTS (2 ár) nám sem felur sér sérhæfingu í greiningu á íþróttatengdum gögnum. Námið er samsett úr námskeiðum sem fjalla um íþróttavísindi og hvernig má greina og hagnýta gögn til að bæta ákvörðanatöku og árangur. Nemendur læra að greina frammistöðu  með myndbandagreiningaforritum, tölfræðigagnagrunnum og íþróttagreiningartækjum (t.d. GPS vesti).

Frekari upplýsingar má sjá í þessu myndbandi:

Og hér:

https://www.ru.is/deildir/ithrottafraedideild/ithrottavisindi

Örnám í frammistöðugreingu í íþróttum er 30 ECTS nám sem dreifist á þrjár annir og því hægt að taka með vinnu. Námið er á meistarastigi. Nemendur taka þrjú 10 eininga námskeið sem fjalla á einn eða annan hátt um frammistöðugreiningu. Námskeiðin þrjú eru: Frammistöðugreining í þjálfun, Greining íþrótta og Rannsóknir í frammistöðugreiningu.  Námskeiðin eru þau sömu og kennd eru í meistaranáminu og því hægt að fá þau metin upp í Msc í íþróttavísindum með áherslu frammistöðugreiningu. Boðið er upp á fjarnám.

Frekari upplýsingar eru í þessu mynbandi: