Stjarnan hafði í kvöld betur gegn ÍBV í Olís-deild karla, 28-26, styrkti þar með stöðu sína í botnbaráttu deildarinnar og sendi um leið HK niður í 1.deild. Fram og Stjarnan eru jöfn að stigum í 8. og 9.sæti Olís-deildarinnar, átta stigum fyrir ofan HK, sem getur náð öðru þeirra að stigum, en aldrei báðum.

Þegar 23 umferðum er lokið í Olís-deild karla og fjórum umferðum ólokið hafa Fram og Stjarnan 15 stig í áttunda og níunda sæti, en HK situr á botnum með 7 stig. HK getur náð öðru þessara liða að stigum, en aldrei báðum þar sem Fram og Stjarnan mætast í Framhúsinu í lokaumferðinni, 2.apríl. Sá leikur gæti ráðið úrslitum um það hvort liðanna heldur sæti sínu í Olís-deildinni, en innbyrðisviðureignin gerir það ennfremur að verkum að annað hvort liðanna hlytur að minnsta kosti 17 stig, eða bæði 16 stig.

Fram á eftir að mæta ÍR og FH á útivelli og Stjörnunni heima, en Stjarnan á eftir að mæta FH heima og HK og Fram úti.