Handknattleikssambands Íslands hefur útnefnt eftirfarandi leikmenn Handknattleiksmann og konu ársins 2016.

Handknattleikskona ársins:

Birna Berg Haraldsdóttir er 23 ára, fædd 21. júní 1993. Hún er uppalin í FH og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með FH 25. október 2008. Birna gekk til liðs við Fram haustið 2010 og lék þar þrjú keppnistímabil. Hún var bikarmeistari 2011 og Íslandsmeistari 2013 með Fram, þá var hún valin efnilegasti leikmaður efstu deildar kvenna árið 2011. Birna gekk til liðs við Savehof í Svíþjóð í júní 2013. Þar lék hún í þrjú tímabil áður en hún skipti til Glassverket í Noregi síðasta sumar. Birna hefur leikið vel í norsku deildinni í vetur, auk þess að hafa átt frábæra leiki í meistaradeild Evrópu þar sem hún var valinn leikmaður umferðarinnar nú á haustmánuðum.

Birna lék sinn fyrsta landsleik gegn Hollandi 23. september 2011 og hefur hún alls leikið 41 landsleik og skorað í þeim 76 mörk. Birna lék einnig 14 leiki með yngri landsliðum Ísland og skoraði í þeim 84 mörk.





Handknattleiksmaður ársins:

Aron Pálmarsson handknattleiksmaður er 26 ára gamall, fæddur 19. júlí 1990. Aron er alinn upp í FH og lék þar alla yngri flokkana. Hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik með FH 1. mars 2006 þá aðeins 16 ára. Aron gekk til liðs við THW Kiel í Þýskalandi sumarið 2009 og spilaði þar í 6 ár, þar til hann flutti sig til MVM Vezprém KC í Ungverjalandi sumarið 2015. Aron hefur verið sigursæll á sínum ferli og unnið flesta þá titla sem eru í boði bæði með Vezprém og Kiel. Aron var valinn mikilvægasti leikmaður á Final Four keppni Meistaradeildarinnar í lok maí.

Aron spilaði sinn fyrsta landsleik 29. október 2008 í Laugardalshöll á móti Belgíu og skoraði þar 2 mörk. Hans fyrsta stórmót var EM í Austurríki 2010 og síðan þá hefur Aron verið í lykilhlutverki með landsliðinu. Aron hefur leikið 109 landsleiki og skorað í þeim 426 mörk. Þá lék hann 47 leiki með yngri landsliðum og skoraði í þeim 214 mörk.