Handboltaskóli HSÍ fór fram um síðustu helgi. Skólinn hefur verið starfræktur á hverju ári í rúmlega 20 ár og er fyrir krakka sem verða 14 ára á árinu. Alls voru um 130 krakkar í skólanum að þessu sinni og æfðu þau alla helgina undir stjórn landsliðsþjálfara og annara góðra þjálfara. Landsliðsmenn og konur komu í heimsókn, fylgdust með æfingunum og spjölluðu við krakkana og að lokum var öllum þátttakendunum boðið á kvennalandsleik Íslands og Slóvakíu og karlalandsleik Íslands og Bosníu. Mjög gaman var að fylgjast með æfingunum hjá krökkunum, það verður athyglisvert að fylgjast með þeim á næstu árum og er greinilegt að þarna eru á ferð landsliðsmenn og konur framtíðarinnar.