Lið Víkings frá 1980 var valið besta karlaliðið og lið Fram frá 1985 var valið besta kvennaliðið í þættinum Handboltalið Íslands á RÚV. Bogdan Kowalczyk, fyrrverandi landsliðsþjálfari, fékk heiðursverðlaun á lokahátíðinni þar sem úrslit voru tilkynnt, en framlag hans til íslensks handknattleiks verður seint að fullu metið. 

Kosið var um bestu handboltaliðin í netkosningu og gilti atkvæðagreiðslan þar til helminga á móti niðurstöðu sérstakrar dómnefndar. Úrslitin  urðu þau að Víkingsliðið frá 1980 var valið besta karlaliðið, lið FH frá 1984 varð í öðru sæti og Valsliðið frá 1988 í þriðja sæti. Lið Fram frá 1985 var valið besta kvennaliðið, lið Vals frá 2012 varð í öðru sæti og lið Stjörnunnar frá 1998 í þriðja sæti.

Florentina Stanciu var valin besta erlendi leikmaðurinn í kvennaflokki og Julian Róbert Duranona var valinn besti erlendi leikmaðurinn í karlaflokki, en þau eru í dag bæði íslenskir ríkisborgarar eins og kunnugt er.

Þá hlaut Bogdan Kowalczyk sérstök heiðursverðlaun eins og áður segir, en Bogdan hafði mikil áhrif á þróun handboltans á Íslandi og náði frábærum árangri sem landsliðsþjálfari.