Núna er EM í handbolta byrjað og stendur yfir næstu tvær vikur. Handknattleikssamband Íslands stendur nú í annað sinn fyrir átakinu “Komdu í handbolta” þar sem öllum börnum er boðið að æfa handbolta í ákveðinn tíma hjá öllum félögum án þess að þurfa að borga fyrir það. Með þessu átaki erum við að reyna að auka áhuga barna á handbolta og við vitum að ein besta leiðin til þess, er að fá íþróttakennara til að vinna með okkur.

HSÍ hefur því fengið íþróttakennara í grunnskólum landsins í lið með sér, til að auka áhuga nemenda á handbolta, með því að fá íþróttakennarana til að vera með handboltaþema í kennslunni hjá sér á meðan á EM í handbolta í Danmörku stendur.

Ef áhugi á handbolta kviknar hjá krökkunum í íþróttatímunum, þá aukast líkurnar á að þau byrji að æfa handbolta hjá félögunum og það er það sem við viljum. Hjá félögunum eiga þau að fá góða þjálfun sem bæði þroskar þau og gerir þau að betri handboltamönnum. Íþróttakennarar munu hvetja áhugasama nemendur til að fara á æfingar hjá sínu félagi.

Við viljum hvetja þá krakka sem áhuga hafa á að prófa að æfa handbolta til að mæta á æfingar hjá félaginu í sínu hverfi og við lofum að það verður tekið vel á móti þeim.