Hæfileikamótun HSÍ | Frábær helgi að baki á Laugarvatni

Yfir 60 krakkar æfðu saman í Hæfileikamótun HSÍ á Laugarvatni síðustu helgi, var þetta lokahelgi Hæfileikamótunar í vetur. Jón Gunnlaugur Viggósson hefur haft yfirumsjón með verkefninu í vetur og skrifar hann hér að neðan hvernig helgin var hjá krökkunum.

Það má með sanni segja að æfingaferðin á Laugarvatn hafi gengið frábærlega og ekki skemmdi veðrið fyrir. Okkar markmið var að gera ferðina á Laugarvatn eftirminnilega fyrir krakkana og þjappa hópunum saman.  

Lagt var af stað frá Laugardalnum um kl 14:00 á föstudaginn og vorum við mætt á Laugarvatn rétt eftir kl 15:00.  

Eftir stuttan upplýsingafund þar sem krakkarnir fengu ristað brauð, hrökkbrauð og ávexti, röðuðum við krökkunum á herbergi eftir starfrófsröð, stelpur á efri hæð og strákarnir á neðri.  

Skipt var í fjóra æfingahópa, tveir hjá stelpum og tveir hjá strákum. Við tóku æfingar hjá hópunum en frjáls tími hjá þeim sem ekki voru á æfingu. Nýttu krakkarnir tímann til að fara á kayak (undir eftirliti), í gleði úti, í billiard eða aðra afþreyingu sem Laugarvatn bauð upp á.  

Æfingar föstudagsins voru í rólegri kantinum, farið var yfir tvö leikkerfi, yfirtöluæfingar og skot fyrir markmenn. Klukkutími í sal sem endaði svo á um 15 mínútu liðleikaæfingu undir handleiðslu markmannsþjálfara.  

Í kvöldmat fengu krakkarnir ostapasta og hvítlauksbrauð en eftir kvöldmatinn var komið að samþjöppunarleikjum. Við skiptum hópnum í 8 lið þar sem hvert lið dró þrjá miða og átti að búa til 1 mínútu langt myndband tengt þeim orðum sem þau drógu. Miðarnir innihéldu Ofurhetju, eitthvað handboltatengt og eitthvað hversdagslegt.   

Ég læt hér fylgja myndband frá sigurliðinu sem var lið nr 1. Þeirra orð voru Aquaman – Inniskór – Dómari.

Eftir að hópurinn hafði horft á videó liðanna og fengið sér kvöldhressingu var farið í Actionary (strákar vs stelpur) en það þurfti fjórfaldan bráðabana til að komast að sigurvegara. Að lokum voru það strákarnir sem sigruðu en ég læt ég fylgja videó af lokaorðinu og fagnaðarlátunum.  

https://youtube.com/shorts/L_6gl0hMMBY?feature=share

Það var mikil gleði í hópnum og erfiðlega gekk að koma á ró í herbergjum (skiljanlega – okkur þjálfurum til mikillar gleði). Þegar klukkan var orðin 00:20 var ákveðið að nota “þjálfara-röddina” til að fá ró inni á herbergjunum, enda var ræs kl 07:30 í frágang/þrif á herbergjum og morgunmat.  

Boðið var upp á grjónagraut, ýmis morgunkorn, brauð, álegg og ávexti.  

Við lögðum af stað 08:30 á Flúðir þar sem við tóku tvær æfingar, önnur í taktík varnar og sóknarlega en seinni æfingin var spil þar sem áherslur helgarinnar voru nýttar.  

Lagt var af stað heim upp úr klukkan 15:00.  

Handknattleikssambandið þakkar kærlega fyrir sig og vonar að ferðin hafi verið krökkunum skemmtileg og eftirminnileg.  

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir úr ferðinni.