Hæfileikamótun HSÍ | 108 iðkendur frá 18 félögum

Fyrsta Hæfileikamótun HSÍ fyrir tímabilið 2023-2024 fór fram um nýliðna helgi.

108 iðkendur fengu boð um að mæta á æfingarnar, 57 drengir úr 17 félögum og 51 stúlka úr 13 félögum. Fjórar æfingar voru á hvorn hóp um helgina en æfingarnar fóru fram í Kaplakrika.

Markmið Hæfileikamótunar HSÍ er fyrst og fremst að fylgjast með yngri leikmönnum félagana og fjölga þeim iðkendum sem fylgst er með á landsvísu, veita þeim aðhald og undirbúning fyrir komandi landsliðsval og landsliðsverkefni. Hæfileikamótun er einnig mikilvægur vettvangur fyrir krakkana til að æfa saman á hæsta getustigi þessa aldursflokks en um leið búa til og byggja upp þéttan hóp iðkenda sem skipa munu yngri landslið HSÍ á komandi árum.

Fjölmargir leikmenn og þjálfarar mættu á æfingarnar að þessu sinni og fóru meðal annars yfir sín uppáhalds skot, fintur ásamt áherslum varnar og sóknarlega.
Það er frábært fyrir iðkendur að fá tækifæri til að taka þátt í og sanna sig á úrtaksæfingum og kynnast leikmönnum sem annars eru alla jafna mótherjar. Svo sannarlega viðburðarík helgi hjá krökkunum.