Grótta vann í dag stóran og afar sannfærandi sigur á Val, 29-14, í úrslitaleik Coca-Cola bikarkeppni kvenna og skráði þar með nafn sitt í sögubækur; þetta er fyrsti titill Seltirninga í handboltanum og þótti mörgum biðin ærin.

Leikurinn í Laugardalshöllinni var býsna ójafn, eins og tölurnar bera með sér, og í raun varð ljóst strax á upphafsmínútunum hvert stefndi. Gróttustúlkur voru einfaldlega betri á öllum sviðum, jóku við forskot sitt jafnt og þétt, greinilega staðráðnar í að ljúka bikarþurrð á Seltjarnanesi. Varla var veikan blett á leik liðsins að finna, varnarleikurinn firnasterkur og sóknarleikurinn frísklegur og árangursríkur. Valsstúlkur verða seint sakaðar um að leggja árar í bát, sigurviljinn og kunnáttan eru vissulega til staðar, en í dag mættu Hlíðarendameyjar einfaldlega ofjörlum sínum.

Mörk Gróttu: Laufey Ásta Guðmundsdóttir 9 (5 víti), Lovísa Thompsen 6, Anett Köbli 3, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 3, Sunna María Einarsdóttir 2, Þórunn Friðriksdóttir 2 (1 víti), Eva Margrét Kristinsdóttir 1, Karólína Bæhrenz Lárudóttir 1, Eva Björk Davíðsdóttir 1, Arndís María Erlingsdóttir 1.

Varin skot: Íris Björk Símonardóttir 14, Elín Jóna Þorsteinsdóttir 6.

Mörk Vals: Kristín Guðmundsdóttir 5 (2 víti), Morgan Marie Þorkelsdóttir 3, Bryndís Elín Wöhler 2, Íris Ásta Pétursdóttir 2, Vigdís Birna Þorsteinsdóttir 1, Sigurlaug Rúnarsdóttir 1.

Varin skot: Berglind Íris Hansdóttir 13, Lea Jerman 2.