Grótta hafði í kvöld betur gegn ÍBV, 34-28, í undanúrslitum Coca-Cola bikarkeppni kvenna og tryggði sér þar með sæti í úrslitaleiknum þar sem andstæðingarnir verða bikarmeistarar síðustu þriggja ára, Valur. Leikurinn var jafn og spennandi framan af fyrri hálfleik, en Grótta náði undirtökunum síðari hluta hálfleiksins og hafði fjögurra marka forystu við lok fyrri hálfleiks, 18-14.

Sóknarleikur var í hávegum hafður, eins og tölurnar bera með sér, og markverðirnir létu tiltölulega lítið að sér kveða í fyrri hálfleik. Grótta hafði undirtökin lengstum í síðari hálfleik, en Eyjastúlkur gáfust þó aldrei upp og hleyptu nokkurri spennu í leikinn undir lokin. Þær þjörmuðu þá talsvert að Seltirningum, en Íris Björk Símonardóttir varði nokkur skot á ögurstundu auk þess sem markstangirnar tóku upp á því að þvælast fyrir Eyjastúlkum. Grótta jók forystuna á lokakaflanum og landaði nokkuð sannfærandi sex marka sigri.

Mörk ÍBV: Ester Óskarsdóttir 6 (2 víti), Telma Amado 5, Vera Lopes 5, Elín Anna Baldursdóttir 5 (4 víti), Díana Dögg Magnúsdóttir 3, Arna Þyrí Ólafsdóttir 1, Jóna Sigríður Halldórsdóttir 1, Kristrún Ósk Hlynsdóttir 1, Drífa Þorvaldsdóttir 1 (1 víti).

Varin skot: Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir 11, Erla Rós Sigmarsdóttir 1.

Mörk Gróttu: Laufey Ásta Guðmundsdóttir 10 (1 víti), Lovísa Thompsen 5, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 4, Arndís Erlingsdóttir 4, Karólína Bærhenz Lárudóttir 4, Anett Köbli 3, Eva Björk Davíðsdóttir 2, Sunna María Einarsdóttir 1. 

Varin skot: Íris Björk Símonardóttir 13.